Bandalagið (1983-85)

Akureysk hljómsveit að nafni Bandalagið starfaði 1983-85 og tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar 1985, sveitin hafði þá líklega árin á undan tvívegis tekið þátt í hljómsveitakeppninni í Atlavík um verslunarmannahelgina en hafði ekki erindi sem erfiði í þessum keppnum.

Meðlimir Bandalagsins voru þeir Sigfús Óttarsson trommuleikari (Baraflokkurinn, Jagúar o.fl.), Karl Örvarsson söngvari (Stuðkompaníið, Eldfuglinn o.fl.), Jósep Friðriksson gítarleikari, Atli Örvarsson (Sálin hans Jóns míns, SSSól o.fl.) hljómborðsleikari og Friðþjófur Sigurðsson bassaleikari (Sniglabandið o.fl.). Þegar sá síðast taldi kom inn í sveitina færði Jósep sig yfir á gítar en hann hafði upphaflega verið á bassanum.

Einhvern tímann voru Eggert Benjamínsson trommuleikari og Hallgrímur Óskarsson gítarleikari í sveitinni og þá líklega í upphafi. Einnig hafði Þráinn Brjánsson trommuleikari starfað um tíma í Bandalaginu en Sigfús mun hafa tekið við af honum.