Faraldur (1986)

Faraldur1

Faraldur

Áttundi og níundi áratugur tuttugustu aldarinnar var blómatíð sveitaballahljómsveita, þá túruðu vinsælustu hljómsveitir landsins gjarnan um landið í hringferð og tóku með sér vinsæla skemmtikrafta til að lengja prógrammið en markmiðið var að hala inn sem mesta innkomu á sem skemmstum tíma. Faraldur var einn þessara hringferðalanga en hafði reyndar þá sérstöðu að vera sett saman eingöngu fyrir slíkan túr.

Vorið 1986 fengu einhverjir þá frábæru hugmynd að taka Icy-hópinn, sem þá var nýbúinn að landa sextánda sætinu í fyrstu atlögu Íslendinga að Eurovision, smala saman nokkrum poppurum og grínurum og moka inn peningum á nokkrum vikum á hringferð um landið. Auk Icy (sem innihélt Helgu Möller söngkonu, Eirík Hauksson söngvara og gítarleikara og Pálma Gunnarsson söngvara og bassaleikara) voru í hópnum Engilbert Jensen söngvari, Tryggvi Hübner gítarleikari, Pétur Hjaltested hljómborðsleikari, Jens Hansson saxófónleikari og Sigurður Reynisson trommuleikari, allt vanir ballspilarar eða verðandi vanir ballspilarar. Í för með þeim voru aukinheldur Eggert Þorleifsson og Arnar Jónsson leikarar sem áttu að fylla upp í gríndagskrána.

Hrært var í fjögurra laga plötu sem gefin var út í upphafi sumars, sniðuglega hannað umslag hennar var sérstakt en það var hvítt með álímdum miðum með upplýsingum um innihaldið en svo voru lakkrendur spreyjaðar yfir ferlegheitin. Platan fékk misjafna dóma, slaka í Helgarpóstinum og DV, þokkalega í Þjóðviljanum en góða hjá Árna Johnsen í Morgunblaðinu. Lagið Heilræðavísur Stanleys (Lítil typpi lengjast mest) sungið af Eggerti sló í gegn, skoraði hátt á vinsældalistunum og allt varð klárt. Rútan var keyrð af stað en því miður gekk dæmið ekki upp, fáir mættu á skemmtanirnar og böllin, lesendasíður dagblaðanna fylltust af bréfum óánægðra ballgesta sem þótti skemmtunin þunn og dýr og á miðri hringför var dæmið blásið af. Niðurstaðan varð eitt stærsta flopp sveitaballarúntanna.

Flestir voru því búnir að gleyma Faraldi í lok sumars og ekki var gerð tilraun til að endurtaka leikinn.

Efni á plötum