Gaddavír (1969-73)

Gaddavír (1973)

Gaddavír

Hljómsveitin Gaddavír úr Reykjavík var nokkuð þekkt á sínum tíma en hún starfaði um fjögurra ára skeið um og upp úr 1970.

Hún var stofnuð sumarið 1969 og gekk fyrst undir nöfnum eins og Gröfin og síðan Friður, var fyrst um sinn fimm manna en þegar meðlimum sveitarinnar fækkaði niður í þrjá hlaut hún nafnið Gaddavír eða öllu heldur Gaddavír 75.

Hvaðan þetta 75 kemur er erfitt að segja en menn misskildu nafnið og töldu hana ýmist heita Gaddavír 75% eða Gaddavír 70, sem hvort tveggja hefði vísað til vodka. Af þeim sökum spilaði sveitin sjaldan á vínveitingastöðum, staðahaldarar héldu að blaðaauglýsingar myndu misskiljast sem áfengisauglýsingar.

Tríóið Gaddavír hafði á að skipa þeim Vilhjálmi Guðjónssyni söngvara og gítarleikara, Braga Björnssyni bassaleikara og Rafni Sigurbjörnssyni trommuleikara (bróður Arnars Sigurbjörnssonar í Brimkló o.fl.) en sá síðastnefndi spilaði aukinheldur á melódíku og banjó við góð tækifæri.

Sumarið 1970 keppti sveitin í hljómsveitakeppni í Húsafelli en slíkar keppnir voru þá nýlunda um verslunarmannahelgar. Gaddavír gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina og fékk m.a. að launum tveggja laga plötusamning við SG-hljómplötur. Af þeirri plötuútgáfu varð þó aldrei þótt sveitin hefði samið tvö lög fyrir hana, sem þeir Vilhjálmur og Bragi ætluðu að syngja.

Einhverjar mannabreytingar urðu í sveitinni meðan hún starfaði, sem var til haustsins 1973, en þar má nefna þá Ingva Þór Kormáksson, Þorkel Jóelsson trommuleikara og Hrólf Gunnarsson (einnig trommuleikara) sem lék með sveitinni í Færeyjaför sem hún fór í haustið 1972, þá lék aukinheldur Árni Möller orgelleikari með henni.