
Galabandið
Hljómsveitin Galabandið starfaði á árunum 1997-2000 með hléum en söngkona sveitarinnar var Anna Vilhjálmsdóttir og reyndar var sveitin stundum kölluð Hljómsveit Önnu Vilhjálms enda var heimavöllur hennar skemmtistaðurinn Næturgalinn við Smiðjuveg í Kópavogi sem Anna rak í samstarfi við aðra konu – nafn sveitarinnar, Galabandið vísar einmitt til Næturgalans.
Sveitin var stofnuð haustið 1997 og var upphaflega skipuð þeim Sigurði Helgasyni trommuleikara, Hallberg Svavarssyni bassaleikara og söngvara, Þóri Úlfarssyni hljómborðsleikara og Kristni Sigmarssyni gítarleikara auk Önnu en fljótlega komu þeir Þórður Árnason gítarleikari og Pétur Hjaltested hljómborðsleikari inn í sveitina í stað Kristins og Þóris.
Galabandið átti eftir að starfa til ársins 2000, þó líklega með hléum – sveitin lék mestmegnis sem fyrr segir á Næturgalanum en lék einnig eitthvað víðar fyrir dansi.














































