Gimp (1997-98)

Gimp

Gimp

Akureyska hljómsveitin Gimp vann hratt á sínum stutta ferli, gaf út plötu og náði að spila erlendis áður en mannabreytingar urðu í henni og nafni hennar breytt í kjölfarið.

Gimp, sem spilaði framsækið rokk var skipuð meðlimum á menntaskólaaldri, þeim Jens Ólafssyni söngvara og gítarleikara (síðar Brain Police o.fl.), Baldvini Zophaniassyni trommuleikara, Kristjáni Örnólfssyni gítarleikara og Atla Hergeirssyni bassaleikara.

Sveitin var stofnuð snemma árs 1997 og hóf strax að vinna eigið efni, og áður en sumarið var hálfnað hafði platan Crippled plaything komið út. Platan bar þess reyndar merki að vera unnin í fljótheitum og hlaut dóm í Morgunblaðinu samkvæmt því en gagnrýnandi Dags-Tímans var öllu jákvæðari og gaf henni ágæta krítík. Sveitin fór um sumarið í tónleikaferð til Danmerkur og þótti fremur efnileg en vorið 1998 höfðu þeir félagar bætt við sig mannskap, og breyttu þá um nafn á sveitinni í leiðinni – kallaði sig þá Toy Machine og varð nokkuð þekkt undir því nafni.

Efni á plötum