Hljómsveit Garðars Jóhannessonar (1945-96)

Hljómsveit Garðars Jóhannessonar 1990

Garðar Jóhannesson harmonikkuleikari starfrækti hljómsveitir um langt árabil, allt frá miðjum fimmta áratugnum þegar hann var um tvítugt og allt fram undir lok aldarinnar – lengst var hann þó með hljómsveit í Ingólfscafé. Rétt er að nefna að sveit Garðars er margsinnis ranglega nefnd Hljómsveit Garðars Jóhannssonar í auglýsingum og fjölmiðlum.

Fyrsta hljómsveit sem Garðar starfrækti í eigin nafni var líklega stofnuð sumarið 1945 en þá lék sveit hans á dansleik í Hveragerði og svo í bíóskálanum á Álftanesi ári síðar, ekki eru heimildir um fleiri böll sem sveit hans lék á en líklega voru þau mun fleiri. Garðar lék reyndar með fjölda annarra sveita á þessum tíma.

Undir lok sjötta áratugarins starfrækti Garðar hljómsveitir sem léku m.a. í Keflavík og einnig á höfuðborgarsvæðinu en þær sveitir sérhæfðu sig allar í gömlu dönsunum. Engar upplýsingar er að finna um meðlimi og hljóðfæraskipan þessara sveita en þó liggur fyrir að Sigurður Ólafsson söng einhverju sinni með sveitinni, þekktir söngvarar tróðu gjarnan upp með hljómsveitum á þessum tíma þótt þeir væru ekki meðlimir sveitanna. Heimild segir frá því að sumarið 1962 hafi stór danspallur – sá stærsti sem nokkru sinni hafði verið reistur á Íslandi, verið byggður á Árbæjartúni í útjaðri Reykjavíkur þar sem sveitin lék á Jónsmessuhátíð en þegar til kom reyndist pallurinn alltof lítill.

Árið 1962 hóf hljómsveit Garðars að leika gömlu dansana í Ingólfscafe og í hönd fór tímabil þar sem sveitin lék reglulega – um tíma nánast öll kvöld, allt til ársins 1979 eða 80 eða hátt í þrjá áratugi sem er líklega einhvers konar Íslandsmet. Björn Þorgeirsson var söngvari þessarar hljómsveit alla tíð en einnig söng Grétar Guðmundsson stundum með henni, hann gæti hafa verið trommuleikari sveitarinnar framan af en síðan var Svavar Halldórsson trymbill hennar í um 25 ár, Garðar lék sjálfur á harmonikku. Heimildir eru fyrir um að Rútur Hannesson og Guðni S. Guðnason harmonikkuleikarar hafi leikið á einhverjum tímapunkti með sveitinni á áttunda áratugnum en ekki er vitað um aðra meðlimi hennar, ekki er t.d. ólíklegt að mun fleiri meðlimir hafi farið í gegnum sveitina allan þann tíma sem hún starfaði.

Þó svo að Ingólfscafe-hljómsveit Garðars hafi hætt störfum í kringum 1980 leið ekki á löngu þar til hann starfrækti nýja sveit í eigin nafni, slík sveit lék fyrir eldri borgara árið 1987 og þá söng Björn með henni en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra meðlimi en þá tvo. 1990 var sveitin hins vegar skipuð þeim Garðari og Birni, Svavari trommuleikara og Þorsteini Þorsteinssyni gítarleikara en þá lék hún á dansleikjum samkomum á vegum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, og gerði það raunar allt til 1996 – ekki er þó víst að hún hafi allt tíð verið skipuð sömu meðlimum.