Lamarnir ógurlegu (1989-90)

engin mynd tiltækLamarnir ógurlega var ekki eiginleg hljómsveit heldur sá hópur sem vann plötuna Nóttin langa sem Bubbi Morthens sendi frá sér fyrir jólin 1989. Hópurinn innihélt þá Bubba sjálfan, Svíann Cristian Falk sem hafði unnið með honum nokkrar plötur þegar hér var komið sögu, Johan Söderberg slagverksleikara, Ken Thomas upptökumann og Hilmar Örn Hilmarsson sem kannski var fyrst og fremst hugmyndasmiður fremur en hljóðfæraleikari.

Einnig má sjálfsagt telja til hópsins þá Guðlaug Óttarsson gítarleikara, Harald Þorsteinsson bassaleikara, Jósep Gíslason hljómborðsleikara og trommuleikarana Birgi Baldursson og Sigtrygg Baldursson sem léku með sveitinni þegar kom að því að kynna plötuna opinberlega, m.a. á útgáfutónleikum á Hótel Ísland, tónleikum í Laugardalshöll, Þorláksmessutónleikum Bubba á Hótel Borg og í sjónvarpsþætti með Bubba á Ríkissjónvarpinu.

Lamarnir störfuðu eitthvað fram á næsta ár, 1990 en síðan lauk samstarfinu.