Nútímabörn (1968-69 / 1974)

Nútímabörn

Nútímabörn

Þjóðlagasveitin Nútímabörn var stofnuð snemma vors 1968 og hóf fljótlega að vekja athygli almennings.

Upphaflega var sveitin skipuð þeim Ágústi Atlasyni söngvara og gítarleikara, Drífu Kristjánsdóttur söngkonu, Ómari Valdimarssyni ásláttarleikara og söngvara, Snæbirni Kristjánssyni bassaleikara og söngvara og Sverri Ólafssyni gítarleikara og söngvara.

Hópurinn var duglegur að koma sér á framfæri og spilaði mikið opinberlega, aukinheldur að koma fram í sjónvarpi.

Nútímabörn voru meðal sveita sem stóðu að styrktartónleikum fyrir hungruð börn í Biafra en meðlimir sveitarinnar voru öll á menntaskólaaldri. Það var snemma vors 1969 en um vorið fór sveitin í stutt frí á meðan próf stóðu yfir.

Þegar hópurinn kom saman á nýjan leik um sumarið var Ómar hættur og fljótlega hóf hópurinn upptökur á stórri plötu sem Pétur Steingrímsson tók upp í Ríkisútvarpinu og SG-hljómplötur gaf síðan út um haustið. Þegar platan, sem var samnefnd sveitinni, kom út voru Nútímabörn hins vegar hætt störfum fyrir nokkru.

Platan seldist þó afar vel og varð fljótlega uppseld, hún var síðan endurútgefin 1984 á fimmtán ára afmæli plötunnar.

Platan hlaut einnig góðar viðtökur fjölmiðlamanna, hún fékk þannig góða dóma bæði í Tímanum og Morgunblaðinu. Einkum hrifust menn af framlagi Ágústs Atlasonar en hann samdi meðal annars lagið Vetrarnótt sem naut vinsælda og hefur löngu orðið sígild. Fljótlega eftir að sveitin lagði upp laupana var hann kominn í Ríó tríó en þar átti hann eftir að starfa næstu árin við miklar vinsældir.

Nútímabörn komu aftur saman fyrir sjónvarpsþátt árið 1974 en ekki varð af frekari samstarfi.

Efni á plötum