Söngvakeppni Sjónvarpsins 1994 – Nætur / Night time

Sigga Beinteins

Sigríður Beinteinsdóttir

Árið 1994 var fyrirkomulag keppninnar með nýju sniði, þrír höfundar fengu það verkefni að semja lag og síðan skildi þjóðin velja eitt þeirra þriggja. Ástæðan fyrir þessu var tvíþætt, annars vegar hlaust sparnaður af þessu fyrirkomulagi en kostnaður vegna tíu laga undankeppni þótti gríðarlega mikill, hins vegar þótti ljóst að meira væri hægt að leggja í sigurlagið í lokakeppninni með þessu móti. Lögin þrjú voru kynnt og sigurlagið valið af sérstakri dómnefnd í þætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali með Hemma Gunn.

Höfundarnir þrír voru þau Anna Mjöll Ólafsdóttir með lag sitt Stopp en það söng hún sjálf, Friðrik Karlsson og lag hans Nætur við texta Stefáns Hilmarssonar, sungið af Sigrúnu Evu Ármannsdóttur, og Gunnar Þórðarson sem átti lagið Indæla jörð sem þau Þóranna Jónbjörnsdóttir og Elfar Aðalsteinsson fluttu. Nöfnum höfundanna var haldið leyndum uns úrslit voru ljós en Nætur Friðrik Karlssonar og Stefáns Hilmarssonar reyndist hafa borið sigur úr býtum.

Óneitanlega hlaut keppnin mun minni athygli en áður vegna þessa fyrirkomulags og menn voru nánast búnir að gleyma laginu þegar fréttir bárust af því að Sigríður Beinteinsdóttir myndi syngja Nætur í stað Sigrúnar Evu (sem ku hafa beðist undan því að syngja lagið) í Dublin (Írar höfðu sigrað tvö ár í röð). Sigríður var því að syngja framlag Íslendinga í þriðja skiptið á fimm árum, fyrst 1990 (Eitt lag enn), þá 1992 ásamt Sigrúnu Evu (Nei eða já) og nú 1994 (Nætur).

Smáskífa með laginu kom út og þar var einnig að finna lagið á ensku eins og venjulega, Night time var heitið á ensku útgáfunni og sömdu þeir Stefán Hilmarsson og Frank MacNamara textann en sá síðarnefndi hafði verið ráðinn til að útsetja lagið fyrir lokakeppina. Lagið kom einnig út á safnplötunni Heyrðu 4 síðar um vorið.

Eurovision keppnin var síðan haldin með pomp og prakt 30. apríl og þrátt fyrir nokkra bjartsýni og jákvæðar spár veðbanka hafnaði lagið í tólfta sæti, Írar sigruðu hins vegar þriðja árið í röð sem var óneitanlega þægilegt fyrir Ríkissjónvarpið, enda fremur stutt að fara og með lægri ferðakostnaður en ella.
Þrátt fyrir nokkur vonbrigði með úrslitin voru flestir sáttir við framlag Íslands, sú umræða varð enn meira áberandi en áður að þjóðir skiptust á stigum og var Sigríður söngkona t.d. harðorð í viðtali við Morgunblaðið þar sem hún sagði m.a. að þeim hefði verið boðinn skriflegur samningur við Möltu um slík stigaskipti.

Efni á plötum