Tónika [útgáfufyrirtæki] (1953-55)

Tónika logo1

Merki Tónika útgáfunnar

Tónika var útgáfufyrirtæki tónlistarmannanna Svavars Gests og Kristjáns Kristjánssonar (KK) en samhliða plötuútgáfa starfrækti fyrirtækið hljóðfæraverslunina Músíkbúðina þar sem m.a. voru seldar hljómplötur.

Fyrirtækið var stofnað 1953 en fyrsta platan kom út árið eftir. Tónika sem útgáfufyrirtæki, starfaði í tvö ár og gaf út á þeim tíma tuttugu og fjóra titla, allt litlar tveggja laga plötur.

Þetta voru plötur með söngvurum eins og Ingibjörgu Þorbergs, Ragnari Bjarnasyni, Birni R. Einarssyni, Öskubuskum, Smárakvartettnum á Akureyri o.fl. en KK-sextett lék iðulega undir, upptökur fóru fram í Ríkisútvarpinu. Hljóðfæraverslunin starfaði þó eitthvað aðeins lengur en Fálkinn keypti síðan upp plötulager Tóniku sem og útgáfuréttinn á tónlistinni.

Svavar átti síðar eftir að standa í mun umfangsmeiri útgáfustarfsemi um áratug síðar undir merkjum SG-hljómplatna.