Út í vorið (1992-)

Út í vorið

Út í vorið

Út í vorið er söngkvartett, stofnaður 1992 af fjórum söngfélögum í Kór Langholtskirkju, þeim Einari Clausen, Þorvaldi Friðrikssyni, Ásgeiri Böðvarssyni og Halldóri Torfasyni. Signý Sæmundsdóttir hefur raddþjálfað hópinn frá stofnun en hann kom fyrst fram opinberlega í upphafi árs 1993 þegar hann söng í Ríkisútvarpinu.

Kvartettinn hefur sungið víða við ýmis tækifæri og hefur ennfremur gefið út þrjár plötur, Kvartettsöngvar kom út 1997 en hún var tekin upp í Laugarneskirkju, Öll tilveran sindraði af sól (ásamt Signýju Sæmundsdóttur) kom út árið 2000 og var tekin upp í Reykholtskirkju, og Undir Stórasteini sem tekin var upp í Laugarneskirkju eins og fyrsta platan.

Allar plöturnar hefur kvartettinn gefið út sjálfur og hefur Sveinn Kjartansson iðulega séð um hljóðvinnsluna, auk þess hefur Hallgrímur Ingólfsson séð um hönnun plötuumslaga kvartettsins.

1999 fór hópurinn til Færeyja í söngferðalag og var efnisskráin á annarri plötunni að mestu byggð á þeirri ferð. Sú plata var tekin upp í Reykholtskirkju. Út í vorið hefur einnig haldið tónleika í Hollandi og Englandi.

Einnig hafa lög með kvartettnum komið út á safnplötum, t.d. á plötunum Bellman á Íslandi (1996) og Hittumst heil (2001) sem tileinkuð var lögum Ágústar Péturssonar. Bjarni Þór Jónatansson hefur verið undirleikari hópsins síðan 1993.

Efni á plötum