Graupan (1990-)

Harðkjarna-geimrokks-djassspunasveitin Graupan var nokkuð áberandi í íslensku tónlistarlífi um tíma á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar og vakti nokkra athygli fyrir illskilgreinanlega tónlist en sveitin hefur sent frá sér tvær afurðir í formi kassetta.

Graupan mun hafa verið stofnuð síðla árs 1990 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Helgi Hauksson (Hamlette Hok) gítar-, trompet- og orgelleikari, Valtýr Björn Thors gítar- og saxófónleikari, Ragnar Óskarsson bassa-, orgel- og ásláttarleikari, Jóhannes Ágústsson trommu- og trompetleikari (jafnan kenndur við 12 tóna) og Elli „Boj“ trommuleikari.

Fyrstur til að yfirgefa Graupuna var Elli trommuleikari (vorið 1991) og eftir stóð kvartett þeirra Helga, Valtýs, Jóhannesar og Ragnars sem lék á þrennum tónleikum um vorið en þessi útgáfa sveitarinnar kom við sögu á safnsnældunni Snarl 3 sem kom út það sama ár. Sama skipan Graupunnar sendi frá sér snælduna „Eytt“ sem kom út 1992 í fimmtíu eintökum og þykir fágætur safngripur í dag.

Tónlist Graupunnar var spuni og var það regla sveitarmanna að spinna allt af fingrum fram, átti það jafnt við æfingar sem tónleika en allt var hljóðritað og því liggur afar mikið efni eftir sveitina, allir þrennir tónleikar hennar voru jafnframt teknir upp á myndband og á einum þeirra sem haldnir voru í Héðinshúsinu voru nokkrir ungir menn sem síðar skipuðu hljómsveitina Sigur rós og segir sagan að þeir hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá Graupunni.

Graupan leystist upp sem hljómsveit síðla sumars 1992 þegar Valtýr hætti í sveitinni en sveitin kom reyndar óvænt fram á Óháðu listahátíðinni sumarið 1993. Helgi notaði Graupu-nafnið hins vegar áfram og sendi frá sér kassettuna Lyfjun 1993 sem að mestu hafði að geyma sólóefni frá honum. Valtýr hóf svo að starfa aftur með Helga undir nafninu og hefur tvíeykið komið fram í þeirri mynd (ásamt ýmsum gestum) allt til þessa dags.

Efni á plötum