Jökulsveitin (1992-94)

Jökulsveitin

Jökulsveitin

Jökulsveitin var blúshljómsveit skipuð ungu og efnilegu tónlistarfólki á fyrri hluta tíunda áratug síðustu aldar.

Sveitin sem stofnuð var snemma árs 1992, hafði á að skipa ungum menntskælingum sem voru Margrét Sigurðardóttir söngkona en hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna um svipað leyti, Georg Bjarnason bassaleikari, Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari, Finnur Júlíusson hljómborðsleikari, Jón Indriðason trommuleikari og Heiðar Sigmundsson gítarleikari (Neol Einsteiger).

Birgir Þórisson [Birgir Þórsson Nielsen?] trommuleikari átti fljótlega eftir að taka við trommunum af Jóni en hann staldraði einnig stutt við og Baldvin A.B. Aalen varð trymbill sveitarinnar þar til yfir lauk. Margrét söng með sveitinni lengst af en þegar verkefnin voru farin að stangast á við verkefni annarrar sveitar, Yrju sem hún söng með líka, kom Bergsveinn Arilíusson inn í sveitina í desember 1993 og starfaði með henni þar til hún hætti störfum líklega í mars 1994.

Jökulsveitin lék á ýmsum blústengdum uppákomum en meðlimir sveitarinnar höfðu ekki haft neinn sérstakan blúsbakgrunn fyrir. Þeir Ásgeir, Georg, Bergsveinn og Baldvin áttu eftir að birtast í poppsveitinni Sóldögg ekki löngu síðar.