Passíukórinn (1972-97)

Passíukórinn

Passíukórinn á Akureyri

Passíukórinn á Akureyri var meðal fremstu kóra landsins meðan hann starfaði en hans naut við í aldarfjórðung.

Það var Roar Kvam, norskur tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Akureyri sem hafði veg og vanda að stofnun kórsins en hann kom til starfa á Akureyri haustið 1971.

Kvam hafði strax frumkvæði að því að setja á stofn kór sem hefði það að markmiði að flytja stór kirkjuleg tónverk, jafnvel með einsöngvurum og stærri hljómsveitum. Þá hafði ekki verið starfandi blandaður kór á Akureyri (nema kirkjukórar) síðan Kantötukór Akureyrar undir stjórn Björgvins Guðmundssonar tónskálds var og hét en sá kór hætti 1955.

Auglýst var eftir söngfólki og var helst óskað eftir yngra söngfólki en síðar var þeim áherslum breytt enda lagðist það misvel í fólk í bænum. Fyrsta veturinn æfði kórinn undir nafninu Kirkjutónlistarsveitin og hélt að minnsta kosti tvenna tónleika undir því nafni. Sá kór innihélt sextán meðlimi.

Það var síðan síðsumars 1972 sem Passíukórinn var formlega stofnaður, meðlimir komu úr ýmsum áttum og voru þeir meðal annars kennarar og nemendur úr tónlistarskólanum, auk annars áhugafólks á Akureyri og nágrenni um söng.

Kvam átti eftir að stjórna Passíukórnum allan tímann sem hann starfaði eða í tuttugu og fimm ár. Kórinn skóp sér fljótlega nafn sem einn öflugasti blandaði kór landsins og réðist ekki á garðinn þar sem hann var lægstur.

Passíukórinn 1976

Passíukórinn 1976

Meðal stærri verka sem kórinn flutti voru Requiem eftir Mozart, Árstíðirnar eftir Haydn, Messías eftir Händel, Carmina Burana eftir Carl Orff og African Sanctus eftir breska tónskáldið David Fanshawe. Þess má geta að flutningur Passíukórsins á Messías eftir Händel var sá fyrsti hérlendis utan höfuðborgarsvæðisins.

Passíukórinn, sem mun hafa verið skipaður allt frá fjörutíu og upp í um sextíu meðlimum (í kringum 1980), söng mestmegnis á heimaslóðum, hélt í hefðir með jóla- og vortónleikum og söng einnig á almennum kórtónleikum ásamt öðrum kórum. Kórinn stóð ásamt fleirum ennfremur fyrir tónlistarhátíðinni Tónlistardagar í maí en sú hátíð var haldin reglulega um árabil. Þá fór kórinn oft suður til Reykjavíkur til tónleikahalds, söng m.a. á Norrænum tónlistardögum í Reykjavík 1976, þá söng Passíukórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrstu kóra utan af landi.

Þótt vel gengi og kórinn fengi hvarvetna góða dóma fyrir söngframlag sitt minnkaði áhugi og aðsókn smám saman en Akureyri og nágrenni voru varla nógu stórt markaðssvæði fyrir svo stóran kór. Framlög frá yfirvöldum minnkuðu ennfremur í takt við fækkun meðlima og svo var komið veturinn 1995-96 að karlaraddir voru af skornum skammti, og reyndar hafði fækkað svo í kórnum að þann vetur starfaði hann sem kammerkór. Um vorið 1997 var Passíukórinn orðinn það fámennur að til vandræða horfði en í eitt skipti kom hann fram á tónleikum og samanstóð þá af ellefu manns – átta kven- og þremur karlaröddum.

Þá þótti ljóst að kórinn ætti ekki framtíð fyrir sér og ákveðið var að halda stóra kveðjutónleika um sumarið 1997, það varð svanasöngur Passíukórsins og þar með var sögu hans lokið.

Ekki voru gefnar út neinar upptökur með Passíukórnum.