Jonee Jonee (1981-91)

Jonee Jonee Vikuplakat

Jonee Jonee

Jonee Jonee var með nýstárlegustu hljómsveitum pönktímabilsins, sendi frá sér breiðskífu og varð svo fræg að spila fyrir tugi þúsunda áhorfendur á tónleikum á Ítalíu.

Sveitin var stofnuð haustið 1981 í Garðabæ og ekki liðu margar vikur þar til hún fór að leika á opinberum vettvangi. Meðlimir hennar í byrjun voru Þorvar Hafsteinsson söngvari og saxófónleikari, Bergsteinn Björgúlfsson trommuleikari og Einar Kristján Pálsson bassaleikari og söngvari.

Jonee Jonee vakti strax athygli fyrir sviðsframkomu sína og tónlist sem byggðist fyrst og fremst á trommu- og bassaleik þeirra Bergsteins og Einars en Þorvar notaði saxófóninn einungis til skraut og heyrðist lítið í honum á löngum köflum enda kunni hann ekkert á hljóðfærið. Tónlistina skilgreindu þeir félagar sem mónóníska líkkistutónlist og textar sveitarinnar, sem Gísli Þorsteinsson samdi marga hverja, vöktu töluverða athygli einnig. Svo mikla að dagblöðin birtu hluta þeirra í nokkrum tilfellum, um það leyti höfðu þeir félagar þegar samið lög eins og Af því að pabbi vildi það og Hver er svo sekur, sem síðar heyrðust í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson.

Strax um áramótin 1981-82 hafði Heimir Barðason tekið við bassanum af Einari og þennan vetur fóru fram mynd- og hljóðupptökur fyrir Rokk í Reykjavík, og átti það ekki hvað minnstan þátt í því að Jonee Jonee varð tiltölulega þekkt hljómsveit því framlag þeirra vakti mikla athygli þegar myndin var frumsýnd um páskana 1982.

Jonee Jonee spilaði mikið á höfuðborgarsvæðinu, einkum með Purrki pillnikk en sveitirnar voru á vissan hátt skyldar í tónlistarlegum skilningi, tríóið fór einnig út á land og lék m.a. á Ísafirði og líklega víðar en fæstar af nýbylgju- og pönksveitunum fóru út fyrir höfuðborgarsvæðið til að leika tónlist sína.

Um sumarið 1982 spurðist út að sveitin hefði farið í hljóðver og um haustið kom út sextán laga plata á vegum Grammsins en hún fékk nafnið Svonatorrek, sem er vísun í ljóð Egils Skallagrímssonar, Sonatorrek. Platan fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda prentuðu fjölmiðlanna, hún fékk t.d. ágæta dóma í Vikunni, Morgunblaðinu, Tímanum og Þjóðviljanum, og þokkalega í Helgarpóstinum og Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.

Jonee Jonee á Borginni 82

Jonee Jonee á Hótel Borg 1982

Um það leyti sem platan var að koma út um haustið 1982 fór sveitin í pásu en um veturinn starfræktu þeir Bergsteinn og Heimir ásamt Einari fyrri bassaleikara Jonee Jonee við fjórða mann hljómsveitina Haug sem Einar setti saman.

Jonee Jonee byrjaði aftur að spila saman um sumarið 1983 og þá hafði Einar aftur gengið til liðs við þá félaga sem söngvari og gítarleikari og starfaði sveitin sem kvartett um tíma. Það var hins vegar um haustið sem nýtt tækifæri barst sveitinni með vægast sagt skömmum fyrirvara en þá var sveitinni boðið að spila á tónleikum á Ítalíu – eftir tvo daga. Þrátt fyrir svo skamman umþóttunarfrest þáði Jonee Jonee boðið og þar sem Heimir og Einar áttu ekki heimangengt fór Hringur Hafsteinsson bróðir Þorvars í þeirra stað sem bassaleikari. Það var ekki vandamál þótt hann hefði aldrei snert á bassa, hann hafði náð nógu góðum tökum á hljóðfærið eftir sex tíma hljómsveitaræfingu og varð frá því liðsmaður sveitarinnar.

Tríóíð lék fyrir þrjátíu og fimm þúsund áhorfendur á tónlistarhátíð í Róm fáeinum dögum síðar og í framhaldinu tók við hálfs mánaðar tónleikaferð til Bologna, Mílanó, Capri og Flórens.

Í þessari ferð var tekin upp tveggja laga smáskífa sem gefin var út á vegum underground-útgáfu þar í landi, platan (Blár azzurro) sem pressuð var í bláan vínyl og með blátt umslag, rataði aldrei í dreifingu til Íslands og ku vera sjaldgæf sjón hérlendis sem annars staðar.

Jonee Jonee 1981

Jonee Jonee 1981

Að lokinni Ítalíuferð þeirra félaga fór fremur lítið fyrir sveitinni, þeir félagar fóru til New York til náms og þar í borg starfræktu þeir Jonee Jonee um tíma ásamt bassaleikaranum Reggi Alain, Hringur lék þá á hljómborð og gítar í sveitinni en þeir Bergsteinn og Þorvar sinntu sínum hlutverkum við trommuslátt, söng og saxófón.

Jonee Jonee starfaði fremur stopult næstu árin en hætti aldrei alveg, eftir að þeir félagar komu heim til Íslands aftur störfuðu þeir með hléum, sveitin var til að mynda starfandi 1985, og fjórum árum síðar stóð jafnvel til að gefa út plötu og voru þá ljóðahöfundar eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson nefndir til sögunnar sem samstarfsmenn. 1991 birtist Jonee Jonee enn lítillega í fjölmiðlum og var þá að vinna efni til útgáfu, þá var Gunnar Lárus Hjálmarsson (Dr. Gunni) með þeim  Bergsteini, Þorvari og Heimi í samstarfi og að öllum líkindum var þá tekin upp heil plata, hún kom þó aldrei út.

Hins vegar kom lag út með sveitinni á safnsnældunni Snarl III: þetta er besta spólan sem ég á! þetta sama ár (1991), 1987 hafði einnig komið út lag á safnplötunni Geysir: anthology of the Icelandic independent music scene of the eighties.

Jonee Jonee virðist ekki dauð úr öllum æðum því haustið 2023 sendi sveitin frá sér vínylplötu sem bar heitið Annar dagur, á þessari 21 laga skífu var að finna nýjar hljóðritanir af gömlu efni (frá árinum 1981-87) – sum þeirra höfðu komið út á Svonatorrek í öðrum útgáfum en önnur höfðu aldrei komið út á sínum tíma, einnig voru fjögur ný lög á plötunni. Efnið hafði verið hljóðritað á árunum 2017 til 21 af Halli Ingólfssyni. Upplagið af plötunni var 400 númeruð eintök en veglegur bæklingur fylgdi henni, hún hlaut prýðilega dóma í Morgunblaðinu

Sveitin lék eitthvað opinberlega í kjölfarið.

Efni á plötum