
½ 7 frá Akureyri
Nýbylgjurokksveitin ½ 7 (Hálfsjö) frá Akureyri var líklega stofnuð sumarið 1981. Ári síðar (1982) var hún skráð til leiks á fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT en hvergi er að finna heimildir um að hún hafi keppt þar, að minnsta kosti komst hún þar ekki í úrslit.
Síðar (veturinn 1982-83) vann sveitin tónlist við rokksöngleikinn Lísu í Undralandi sem settur var á svið í Dynheimum á Akreyri undir leikstjórn Viðars Eggertssonar, en meðlimir hennar sömdu tónlistina sjálfir og var hún gefin út á snældu undir titlinum Lísa í Undralandi. Þá var Hálfsjö skipuð þeim Þráni Brjánssyni trommuleikara, Jóhanni Ingvarssyni hljómborðsleikara, Jóni Hauki Brynjólfssyni bassaleikara, Guðmundi Ómari Péturssyni gítarleikara og Kolbeini Gíslasyni söngvara og gítarleikara. Upphaflega var Sigfús Óttarsson trommuleikari sveitarinnar en hætti þegar Baraflokkurinn fékk hann 14 ára gamlan til liðs við sig, Þráinn leysti hann af hólmi.
Heimildir herma að Skriðjöklar hafi verið stofnuð upp úr ½ 7.














































