
Fánar
Hljómsveitin Fánar vakti nokkra athygli árið 1994 fyrir lagið Greidd skuld glatað fé, á safnplötunni Já takk, sem Japis gaf út. Meðlimir sveitarinnar í því lagi voru Magnús Einarsson gítarleikari og söngvari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari.
Tríóið hafði verið stofnuð árið 1992 og þá voru meðlimir þess Magnús, Þórður Högnason bassaleikari og Bergsteinn Björgúlfsson trymbill, síðar kom Birgir Baldursson – þriðji trommuleikarinn við sögu Fána og enn einn trymbillinn átti eftir að starfa með sveitinni, það var Ragnar Sigurjónsson sem kom inn í Fána árið 1995 en aðrir meðlimir hennar voru þá Haraldur bassaleikari, Ágúst Ragnarsson söngvari og gítarleikari og Þorsteinn Magnússon gítarleikari. Enn fleiri gætu hafa komið starfað með sveitinni á einhverjum tímapunkti.
Fánar störfuðu líklega til ársins 1996 og léku einkum á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins.














































