Jamaica (1978-82)

Jamaica21

Jamaica

Hljómsveitarnafnið Jamaica er eins fjarri því að vera norðlenskt sem unnt er, en sveit með þessu nafni lék og starfaði um árabil á Akureyri í lok áttunda áratugar síðustu aldar og við upphaf þess níunda.

Jamaica var stofnuð upp úr hljómsveitinni Hjólinu en upphaflega voru líklega í bandinu þeir Snorri Guðvarðarson gítarleikari, Matthías Henriksen trommuleikari, Kristján Jónsson bassaleikari og Ólafur Sigurðsson gítarleikari, þegar Helgi Magnússon hljómborðsleikari og Árni Henriksen annar trommuleikari bættust í hópinn tók sveitin upp nafnið Jamaica snemma vors 1978.

Sveitin var öflug í spilamennsku á heimaslóðum og nærsveitum næstu misserin, Helga Alice Jóhanns söngkona bættist í hópinn um áramótin 1978-79 og sumarið 1980 kom Gunnar Gunnarsson hljómborðs- og píanóleikari inn í sveitina, hann var þá aðeins nítján ára gamall og átti síðar eftir að gera garðinn frægan með djasspíanóplötum sínum.

Jamaica starfaði ekki samfleytt, var í einhverjum styttri pásum en lék einnig undir í kabarett sýningu Leikfélags Akureyrar huastið 1980. Síðustu misserin var sveitin húshljómsveit Sjallans á Akureyri, m.a. þegar staðurinn brann í desember 1981. Þá var Steingrímur Óli Sigurðsson orðinn trymbill sveitarinnar.

Þess má að lokum geta að söngkonan Leoncie Martins, hin eina sanna Leoncie söng með sveitinni nokkur kvöld undir það síðasta sem hljómsveitin Jamaica starfaði haustið 1982, hún var þá nýkomin til landsins en átti eftir að setjast hér að.