Hljómsveit Svavars Gests (1949-65)

Hljómsveit Svavars Gests

Hljómsveit Svavars Gests var ein af vinsælustu danshljómsveitum Íslands á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar, sveitin keppti um þá nafnbót einkum við KK sextettinn en Svavar hafði reyndar verið í þeirri sveit nokkru áður.

Sveitin var stofnuð haustið 1949 til að spila í Þórskaffi. Hana skipuðu þá Svavar sjálfur er lék á trommur, Árni Ísleifsson píanóleikari, Garðar Jóhannesson harmonikkuleikari og Þórir Jónsson fiðluleikari. Stundum lék Guðmundur Hansen harmonikkuleikari einnig með sveitinni. Um tíma mun sveitin hafa leikið í Vestmannaeyjum (líklega 1951) og var Guðmundur H. Norðdahl meðlimur hennar þá en þegar sveitin fór aftur upp á fastalandið varð hann eftir í Eyjum og starfrækti eigin sveit í kjölfarið.

Sveitin starfaði áfram í Þórscafe en árið 1952 var Svavar ráðinn til að spila í Breiðfirðingabúð, meðlimir sveitarinnar héldu áfram í Þórskaffi en Svavar mannaði sveitina upp á ný með Steinþóri Steingrímssyni píanóleikara, Gretti Björnssyni harmonikkuleikara og Guðmundi Finnbjörnssyni saxófónleikara en Guðni S. Guðnason átti eftir að leysa Gretti af hólmi þegar sá fluttist til Bandaríkjanna, Guðni lék með sveitinni til 1954. Ýmsir söngvarar sungu með sveitinni á þessum árum í lausamennsku og má nefna þar nafnkunna söngvara eins og Alfreð Clausen, Ingibjörgu Þorbergs, Ragnar Bjarnason og Sigurð Ólafsson.

Hljómsveit Svavars um 1960

Sveitin tók nokkrum breytingum og um miðjan sjötta áratuginn var sveitin þá skipuð þeim Svavari, Gunnari Ormslev tenórsaxófónleikara, Árna Elfar píanóleikara og Sigurbirni Ingþórssyni kontrabassaleikara. Þegar sveitinni var sagt upp í Breiðfirðingabúð 1955 lagði Svavar sveitina niður en nokkrum mánuðum síðar hóf hún starfsemi að nýju í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og enn með mannabreytingum en þá voru auk hans í sveitinni þeir Reynir Jónasson harmonikku- og saxófónleikari, Baldur Kristjánsson píanóleikari, Kristján Hjálmarsson klarinettu- og saxófónleikari og Hrafn Pálsson bassaleikari, Jón Páll Bjarnason lék með sveitinni í nokkra mánuði árið 1955 en ekki liggur fyrir hvort það var fyrir eða eftir pásuna. Um tíma árið 1956 voru meðlimir sveitarinnar þeir Svavar, Árni Elfar, Jón Sigurðsson [trompetleikari?], Axel Kristjánsson bassaleikari og svo söngvarinn Ragnar Bjarnason, og einnig lék Viðar Alfreðsson með henni á einhverjum tímapunkti það sama ár. Finnur Eydal starfaði svo með sveitinni 1957-58.

Enn urðu breytingar á sveitinni og 1959 voru þeir Sigurður Þ. Guðmundsson píanóleikari og Eyþór Þorláksson gítarleikari komnir inn, þá var Hrafn Pálsson bassaleikari hennar og að auki var Sigurdór Sigurdórsson söngvari ráðinn í sveitina, Sigurður Johnny kom einnig eitthvað fram með henni. Sveitin var nú farin að leika annars staðar samhliða fastráðningunni í Sjálfstæðishúsinu, t.d. um verslunarmannahelgi í Vaglaskógi og á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Í upphafi árs 1960 tók Gunnar Pálsson við bassanum af Hrafni Pálssyni og þetta sama ár tók sveitin upp tveggja laga plötu sem naut mikilla vinsælda, reyndar varð Sigurdór söngvari ósáttur við að vera ekki getið á plötumiða sem söngvari en slíkt tíðkaðist þá, og hætti hann í kjölfarið. Lögin tvö, Mústafa og Þórsmerkurljóð hafði sveitin flutt á skemmtunum en textann við síðarnefnda lagið hafði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur gert og sungið á myndakvöldum Ferðafélags Íslands. Hér birtist það þó fyrst á plötu en bæði lögin nutu mikilla vinsælda.

Hljómsveit Svavars Gests

Um svipað leyti og Sigurdór hætti, hættu þeir Eyþór gítarleikari og Sigurður píanóleikari einnig í sveitinni og tóku þeir Örn Ármannsson og Magnús Ingimarsson við af þeim en einnig bættist í hópinn söngvarinn Ragnar Bjarnason, sem þá var orðinn einn vinsælasti og ástsælasti söngvari landsins, Sigrún Ragnarsdóttir söng jaframt aðeins með sveitinni.

Garðar Karlsson tók við af Erni gítarleikara snemma árs 1961 en það árið hóf hún að leika í Lídó, það sama ár komu út nokkrar plötur með sveitinni á vegum Íslenzkra tóna, þrjár plötur með Ragnari (ein þeirra ásamt söngkonunni Önnu Maríu Jóhannsdóttur) en á þeim má m.a. finna lögin Vorkvöld í Reykjavík og Komdu í kvöld, og svo tveggja laga plata þar sem Jónas Jónsson söng lögin Kvöldljóð og Spánarljóð, síðarnefnda lagið naut nokkurra vinsælda. Árið eftir fór Reynir Jónasson utan í nám og hætti því í hljómsveitinni, í stað hans höfðu komið að norðan Finnur Eydal klarinettu- og saxófónleikari, og Helena Eyjólfsdóttir söngkona. Þannig skipuð kom út sex laga plata með sveitinni sem hafði að geyma twist-lög (1962) en sannkallað twist-æði gekk þá yfir Ísland. Þá var hljómsveit Svavars orðin sjö manna, skipuð þeim Finni, Helenu, Gunnari, Magnúsi, Garðari, Ragnari og Svavari. Og fleiri smáskífur komu út 1962 og 63, fjórar tveggja laga plötur með söng Ragnars komu út en hann var þarna með hvern stórsmellinn á fætur öðrum – Ship-o-hoj, Nótt í Moskvu, Heyr mitt ljúfasta lag og Vertu sæl mey voru t.a.m. á þessum plötum en þau teljast öll til sígildra laga Ragnars.

Hljómsveit Svavars Gests

Þau Finnur og Helena stöldruðu ekki lengi við í sveitinni og hættu 1962. Reynir Jónasson gekk aftur til liðs við hana en hætti haustið 1963, Gunnar Ormslev saxófónleikari leysti hann af hólmi en hann hafði verið í sveit Svavars átta árum áður. Snemma vors hafði sveitin flutt sig yfir í Súlnasal Hótels Sögu en hann var þá nýkominn í gagnið. Ragnar söngvari hætti nú í sveitinni og fluttist til Danmerkur en við söngvarastarfinu tóku nú Anna Vilhjálms og Bertram (Berti) Möller, bæði ung og efnileg á sínu sviði. Þau sungu með sveitinni til 1964 þegar Ragnar kom aftur heim til Íslands en þá gekk Henny Eldey (Elly) Vilhjálmsdóttir einnig til liðs við hópinn.

Fleiri litlar plötur komu út með söngvurunum fjórum árið 1964 þar sem sveitin lék undir. Hér má nefna skífurnar Síldarstúlkurnar sem hafði að geyma fjögur klassísk Eyjalög eftir Oddgeir Kristjánsson sem þarna voru sum hver að koma út í fyrsta sinn á plötum (Þá varstu ungur / Sólbrúnir vangar / Ég veit þú kemur / Síldarstúlkurnar), tveggja laga plata með lögunum Heimilisfriður / Ef þú giftist sem Anna og Berti sungu við miklar vinsældir og Í grænum mó / Sumarauki með Elly síðar sama ár, sem Fálkinn og Íslenskir tónar gáfu út. Um haustið hafði Svavar hins vegar stofnað plötuútgáfuna SG-hljómplötur og þá kom út jólaplatan 4 jólalög með Elly og Ragnari en sú plata er löngu síðan orðin sígild og hefur margoft verið endurútgefin – umslag hennar er t.d. til í þremur mismunandi útgáfum.

Svipað var uppi á teningnum 1965, fjögurra laga skífan Elly og Ragnar með Hljómsveit Svavars Gests kom út og hafði að geyma lögin Hvert er farið blómið blátt? / Brúðkaupið / Farmaður hugsar heim / Skvetta, falla, hossa og hrista, og nokkru síðar önnur fjögurra laga plata með lögunum Heyr mína bæn / Sveitin milli sanda / Útlaginn / Þegar ég er þyrstur – öll þessi lög eru órjúfanlegur partur af íslenskri tónlistarsögu og ekki síður meðal hápunkta söngvaranna tveggja. Áður en árið var úti höfðu komið sex lög í viðbót út á plötu sem bar titilinn Járnhausinn en hún hafði að geyma lög úr samnefndum söngleik eftir Jónas og Jón Múla Árnason, Ómar Ragnarsson söng með þeim á þessari plötu sem hefur m.a. að geyma stórsmellina Við heimtum aukavinnu, Án þín, Undir Stórasteini og Sjómenn íslenskir erum við. Og sveitin lék inn á fleiri plötur á vegum hinnar nýju útgáfu, plötuna Fjögur ný sumarlög með Ómari Ragnarssyni og svo tvær breiðskífur með Fjórtán fóstbræðrum (1964 og 65) en SG-plötuútgáfan hafði einmitt verið stofnuð til að gefa út fyrri plötuna með þeim Fóstbræðrum.

Þekktasta útgáfa sveitarinnar með Elly og Ragnar

Einhverjar breytingar höfðu þarna orðið á sveitinni, Halldór Pálsson saxófónleikari tók nú við starfi Gunnars Ormslevs og 1965 hætti Gunnar bassaleikari en við honum tók Reynir Sigurðsson. Enn eru ótalin Jón Páll Bjarnason gítarleikari og Sigrún Jónsdóttir söngkona en þau bæði munu hafa verið í sveitinni á einhverju tímabili í sögu hennar.

Þegar Svavar stofnaði plötuútgáfuna árið 1964 efldist slík útgáfa mjög hér á landi og gaf SG út nokkrar plötur með þeim Elly og Ragnari sem fyrr segir en segja má að nánast öll útgefin lög hljómsveitarinnar hafi notið vinsælda. Í kjölfarið þeirrar velgengni sem plötuútgáfan naut þurfti Svavar hins vegar að minnka umsvif sín á ballmarkaðnum og svo fór að lokum að hann lagði hljómsveitina niður sem lék í síðasta skiptið síðsumars 1965, og einbeitti Svavar sér að plötuútgáfu upp frá því.

Hljómsveit Svavars Gests verður líklega minnst sem einnar vinsælustu danshljómsveit Íslands fyrr og síðar, einkum eftir að KK-sextett hætti 1962 og varð hún nánast einráð á markaðnum í kjölfarið, og þótt sveitin hafi ekki endilega gefið mikið út af efni undir eigin nafni komu út margar hljómplötur þar sem hún lék undir söng þekktustu söngvara landsins en alls komu út tuttugu smá- og breiðskífur með sveitinni á árunum 1960 til 64. Ríkisútvarpið gaf löngu síðar svo út tvær plötur í flokknum Útvarpsperlur, þar sem heyra má upptökur sveitarinnar í útvarpssal, og þess þarf varla að geta að mörg laga sveitarinnar hafa komið út á hundruð safnplatna í gegnum tíðina sungin af Elly Vilhjálms, Ragnari Bjarnasyni, Sigurdóri Sigurdórssyni, Jónasi Jónassyni, Fjórtán fóstbræðrum og Ómari Ragnarssyni svo nokkur nöfn séu nefnd.

Efni á plötum