
Björn Thoroddsen
Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans fara fram ÞRIÐJUDAGINN 4. nóvember með gítarleikaranum Birni Thoroddsen. Á tónleikunum sýnir Björn á sér nýjar hliðar en hann kemur fram aleinn og óstuddur án aðstoðarmanna. Tónleikarnir byggjast uppá einum gítar, einum flytjanda, mörgum tónlistarstefnum en þó aðallega breidd gítarsins. Tónleikagestir geta átt von á að heyra verk eftir Duke Ellington, Joe Zawinul, Rolling Stones, Richard Rodgers, Beatles og jafnvel eitthvað eftir gítarleikarann sjálfan.
Vetrardagskrá Jazzklúbbsins Múlans er spennandi og heldur áfram og verða 11 tónleikar í röðinni sem fara fram flest miðvikudagskvöld fram í byrjun desember. Múlinn er á sínu átjánda starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu. Flestir tónleikar Jazzklúbbsins Múlans fara fram á Björtuloftum eða í Kaldalónssal Hörpu.
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum Hörpu og er miðaverð kr. 1500, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og midi.is














































