Stuðlatríó (1965-91)

Stuðlatríó

Ein útgáfa Stuðlatríósins

Stuðlatríó(ið) (sem upphaflega kom úr Kópavogi) starfaði um ríflega tuttugu og fimm ára skeið (með hléum þó) á síðari hluta liðinnar aldar. Eftir nokkra rannsóknarvinnu er niðurstaðan sú að Stuðlatríóið og Stuðlar sé sama sveitin og hún hafi gengið undir mismunandi nöfnum eftir meðlimafjölda hverju sinni, gengið er út frá því þar til annað kemur í ljós.

Elstu heimildir um sveitina er að finna í dagblöðum frá 1965 en hún virðist hafa starfað nokkuð samfleytt til ársins 1985, um tíma sem húshljómsveit á Röðli og áður sem eins konar hússveit í Skiphóli í Hafnarfirði og á veitingastaðnum við Laugarteig.

Stuðlatríó

Það var Dónald Jóhannesson (Donald Rader) gítar- og saxófónleikari sem stofnaði sveitina sem tríó árið 1965 og voru þeir Guðni Þ. Guðmundsson hljómborðs- og harmonikkuleikari og Einar Blandon trommuleikari með honum fyrstu árin. Dónald lék með sveitinni til ca. 1970 en aðrir sem kom við sögu sveitarinnar á þessu fyrra aðalskeiði hennar voru Viðar Jónsson söngvari og gítarleikari, Helgi Hjálmarsson hljómborðsleikari og Jón Sigurðsson (bankamaður) hljómborðsleikari. Ýmsir gestasöngvarar komu á þessum árum við sögu sveitarinnar, eins og Rútur Hannesson og Anna Vilhjálms en Stuðlatríóið / Stuðlar sérhæfðu sig alltaf í gömlu dönsunum og lék líklega bæði á almennum dansleikjum og sérhæfðari samkomum s.s. árshátíðum, þorrablótum og þess háttar en Pétur „rakari“ Guðjónsson var lengi vel umboðsmaður sveitarinnar.

Stuðlatríóið / Stuðlar störfuðu nokkuð samfleytt til ársins 1985. Eitthvað fór lítið fyrir sveitinni næstu árin eftir það en hún kom aftur fram á sjónarsviðið 1988 og aftur tveimur árum síðar, vorið 1991. Þá starfaði hún stutt og síðan hefur ekkert heyrst til hennar.

Á síðari árum voru þeir Viðar og Helgi í Stuðlatríóinu / Stuðlum eins og áður en nú var Þórður Þórðarson í trommuleikarahlutverkinu. Einhverju sinni mun Einar Hólm einhverju sinni hafa spilað á trommur í sveitinni á því seinna skeiði.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um Stuðlatríóið / Stuðla.