Stuðlatríó (1966-90)

Stuðlatríó

Ein útgáfa Stuðlatríósins

Stuðlatríó(ið) (sem upphaflega kom úr Kópavogi) starfaði um tuttugu og fimm ára skeið (með hléum þó) á síðari hluta liðinnar aldar.

Elstu heimildir um sveitina er að finna í dagblöðum frá 1966 en hún starfaði samfleytt til ársins 1977, síðustu tvö árin þó sínu mestu en þá lék hún sleitulítið á Röðli.

Meðlimir sveitarinnar á þessu fyrra aðalskeiði hennar voru Viðar Jónsson söngvari og gítarleikari, Helgi Hjálmarsson hljómborðsleikari og Einar Blandon sem spilaði líklega á trommur. Ýmsir gestasöngvarar komu á þessum árum við sögu sveitarinnar, eins og Rútur Hannesson og Anna Vilhjálms en Stuðlatríóið sérhæfði sig alltaf í gömlu dönsunum.

Vorið 1977 lagðist Stuðlatríóið í dvala en birtist aftur haustið 1979 og spilaði nokkuð á öldurhúsum til ársins 1985. Eitthvað fór lítið fyrir sveitinni næstu árin en hún kom aftur fram á sjónarsviðið 1988 og aftur tveimur árum síðar, vorið 1990. Þá starfaði hún stutt og síðan hefur ekkert heyrst til hennar.

Stuðlatríó

Stuðlatríó

Á síðari árum voru þeir Viðar og Helgi í Stuðlatríóinu eins og áður en nú var Þórður Þórðarson í trommuleikarahlutverkinu. Einhverju sinni mun Einar Hólm einhverju sinni hafa spilað á trommur í sveitinni.

Þeir félagar hafa ekki verið áberandi í íslensku tónlistarlífi utan Viðar, sem hefur gefið út plötur í eigin nafni en hann hefur einnig verið í ýmsum hljómsveitum eins og Áhöfninni á Halastjörnunni og Kúrekunum svo dæmi séu tekin, auk þess að starfa með bróður sínum, Ara Jónssyni.