Andlát – Björgvin Gíslason (1951-2024)

Björgvin Gíslason

Tónlistarmaðurinn Björgvin Gíslason er látinn, á sjötugasta og þriðja aldursári.

Björgvin fæddist haustið 1951, hann var Reykvíkingur og ól þar manninn mest alla tíð. Hann var að mestu sjálflærður í tónlistinni, lærði þó lítillega á píanó en er auðvitað þekktastur fyrir gítarleikni sínam, hann lék þó einnig á fjölda annarra hljóðfæra s.s. píanó, hljómborð og sítar en Björgvin er klárlega þekktasti sítarleikari landsins og lék inn á fjölda platna á það hljóðfæri.

Hljómsveitaferill Björgvins er afar langur og honum verður ekki gerð hér skil í stuttu máli en hann lék með miklum fjölda þekktra hljómsveita og öðrum eins fjölda óþekktra sveita – sumum til margra ára en með öðrum um skamma hríð. Sá ferill hófst um miðjan sjöunda áratuginn með hljómsveitinni Flamingo en svo fylgdu í kjölfarið sveitir eins og Falcon, Zoo, Pops, Opus 4 og svo Náttúra sem var fyrsta stóra band Björgvins, proggsveit sem starfaði um nokkurra ára skeið og sendi frá sér plötuna Magic key. Í kjölfarið komu fleiri þekktar sveitir, Pelican og Paradís sem báðar voru í hópi vinsælustu hljómsveita landsins og sendu frá sér vinsælar plötur, og svo fjöldinn allur af misþekktum sveitum sem sumar hverjar stóðu í plötuútgáfu – hér má nefna Blámakvartettinn, Póker, Sjálfsmorðssveitina, Eik, Íslenska kjötsúpu, Puppet, Deild 1, Frakka, Big nós band, Strákana, Das Kapital, Þrjá á palli, Aukinn þrýsting, Gömlu brýnin, Við, Draumasveitina, Völuspá, Hljómsveit Stefáns P, Vestanhafs, Bláa fiðringinn, Skaf, Shady, Bandið hans pabba og Kletta svo nokkur nöfn séu nefnd. Þá má geta þess að Björgvin lék einnig um skamma hríð með vinsælum hljómsveitum eins og Mannakornum, Brunaliðinu, Friðryk og KK-bandi þótt hann hafi e.t.v. ekki verið áberandi með þeim sveitum, hann starfaði jafnframt um tíma í Bandaríkjunum í kringum 1980 með blússveit Clarence „Gatemouth“ Brown.

Björgvin Gíslason

Björgvin á að baki fjölmargar sólóplötur, sú fyrsta Öræfarokk kom út 1977 og í kjölfarið fylgdu Glettur (1981) og Örugglega (1983) sem hafði að geyma stórsmellinn Afi sem Björk Guðmundsdóttir gerði skil með eftirminnilegum hætti. Nokkurt hlé varð á útgáfu sólóplatna eftir það en á nýrri öld hafa nokkrar slíkar komið út, Bio sem kom út 2001 í tilefni af fimmtugs afmæli hans, Púnktur (2003), Slettur (2015) og svo Jarðarbunga (2022) sem hann vann í samstarfi við Sigurð Bjólu Garðarsson. Einnig hefur komið út þrefalda ferilsafnplatan Björgvin Gíslason X3 (2011). Þar fyrir utan vann Björgvin við upptökur og útsetningar á tónlist um árabil og lék jafnframt inn á margar þeirra platna, þær plötur skipta sjálfsagt tugum ef ekki hundruðum en hér má nefna plötur með Megasi, Herdísi Hallvarðsdóttur, Bubba Morthens, Teiti Magnússyni, Ásgeiri Óskarssyni, Björk, Agli Ólafssyni, Change, Kötlu Maríu, Ladda og Mugison svo aðeins fáein nöfn séu nefnd.

Hér hefur aðeins fátt eitt verið talið upp af verkum Björgvins Gíslasonar, Björgvin fetaði ekki endilega þá slóð sem markaðurinn kallaði eftir á plötum sínum heldur fór hann eigin leiðir og sendi frá sér tónlist sem honum hugnaðist, hans verður því fyrst og fremst minnst fyrir gítarleikni sína hvort sem sú tónlist var kennd við blús, progg eða aðra strauma og stefnur. Hann hélt sárasjaldan tónleika í eigin nafni en fór þó í tónleikaferð um landsbyggðina árið 2012 sem vakti nokkra athygli. Hann er einn þeirra sem hlotið hefur nafnbótina heiðursfélagi Blúshátíðar í Reykjavík.

Björgvin lætur eftir sig eiginkonu og þrjá uppkomna syni.